1200px University of Iceland logo.svg copy

Nemendur eru um 14 þúsund talsins og starfsmenn nærri fimmtán hundruð auk þess sem um 2500 stundakennarar koma að kennslu í skólanum. Háskóli Íslands hefur brautskráð yfir 40 þúsund nemendur, sérfræðinga og stjórnendur, sem hafa tekið virkan þátt á öllum sviðum íslensks samfélags. Skólinn er í hópi 300 bestu háskóla heims samkvæmt matslista Times Higher Education World University Rankings.

haskolinn akureyri logo copy

Háskólinn á Akureyri er opinber skóli sem stofnaður var árið 1987. Skólinn býður upp á fjölbreytt námsumhverfi með það hlutverk að "skapa heim þar sem nemendum líður vel í persónulegu umhverfi sem örvar þá til skapandi verka". Boðið er upp á nám á þremur fræðasviðum, heilbrigðisvísindasviði, hug- og félagsvísindasviði og viðskipta- og raunvísindasviði. Um 2000 nemendur stunda nám við skólann, þar af um helmingur í sveigjanlegt námi, og við hann starfa um 190 starfsmenn.

RU logo fsize copy

Háskólinn í Reykjavík (HR) samanstendur af fjórum deildum - viðskiptadeild, tölvunarfræðideild, lagadeild og tækni- og verkfræðideild. HR býður upp á grunnnám, meistaranám og doktorsnám. Háskólinn í Reykjavík er hlutafélag og eru hluthafar sjálfseignarstofnun Viðskiptaráðs Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Kjarnastarfsemi Háskólans í Reykjavík er kennsla og rannsóknir í sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag, þar sem áhersla er lögð á þverfagleika, alþjóðleg viðmið, nýsköpun og faglega þjónustu. HR er annar stærsti háskóli landsins, með um 3.300 nemendur, 250 kennara og starfsfólk auk um 200 kennara í hlutastarfi. Starfsmenn háskólans koma frá um 20 löndum. Um 140 akademískir starfsmenn (lektorar, dósentar, prófessorar, aðjúnktar, nýdoktorar, gesta prófessorar og aðrir sérfræðingar) vinna við HR að ýmsum rannsóknarverkefnum í samvinnu við bæði innlendar og erlendar rannsóknastofnanir og fyrirtæki.

Polar Law Institute logo copy

Polar Law Institute - Heimskautaréttarstofnunin er sjálfstæð stofnun við Háskólann á Akureyri. Hún var stofnuð árið 2009 með það að meginmarkmiði að skipuleggja árlega ráðstefnu á sviði Heimskautaréttar. Tilgangur stofnunarinnar er auk þess að styðja við nám í heimskautarétti við Háskólann á Akureyri, standa fyrir sjálfstæðum rannsóknarverkefnum og í samstarfi við aðra aðila, stuðla að samvinnu á sviði heimskautaréttar og gefa út rit um málefni tengd heimskautunum. 

Jafnrettisstofa logo

Jafnréttisstofa var opnuð á Akureyri í september árið 2000. Stofan annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á Íslandi í samræmi við lög nr. 10 frá 2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hlutverk Jafnréttisstofu er skilgreint í 4. grein laganna en stofnunin heyrir undir yfirstjórn velferðarráðherra. Verkefni sem Jafnréttisstofa annast eru meðal annars að hafa eftirlit með framkvæmd laganna, miðlun upplýsinga um jafnrétti kynjanna auk þess að sinna fræðslu og ráðgjöf til einstaklinga, félaga, fyrirtækja, stofnana og stjórnvalda á öllum stigum. Þá ber Jafnréttisstofu að fylgjast með þróun jafnréttismála í þjóðfélaginu, meðal annars með upplýsingaöflun og rannsóknum.

Skjoldur Landhelgisgaeslu merki copy

Landhelgisgæsla Íslands var stofnuð árið 1926 og hafa starfsmenn Landhelgisgæslunnar frá upphafi gætt hagsmuna þjóðarinnar við verndun fiskimiðanna og björgunarstörf, stundum í kröppum dansi, eins og alkunna er. Þeir hafa einnig ávallt verið reiðubúnir til þess að aðstoða sjófarendur og fólk úti á landsbyggðinni, oft á tíðum við erfiðustu aðstæður, þegar öll sund hafa virst lokuð. Að auki gegna þeir lögum samkvæmt hinum margvíslegustu þjónustuhlutverkum við strendur landsins og á landgrunninu.

Helstu verkefni Landhelgisgæslunnar eru löggæsla og eftirlit á hafinu umhverfis Ísland, ábyrgð og yfirstjórn á leit og björgun á sjó og aðstoð við björgun og sjúkraflutninga á landi. Þá sinnir gæslan einnig sjómælingum og sjókortagerð, sprengjueyðingu, rekstri fjarskipta- og ratsjárstöðva og umsjón með öryggissvæðum og eignum NATO á Íslandi.

MVS logo

Mannvirkjastofnun tók til starfa 1. janúar 2011 samkvæmt lögum um mannvirki nr. 160/2010 sem tóku gildi þann sama dag. Nýja stofnunin tók við því hlutverki á sviði brunavarna og rafmagnsöryggismála sem Brunamálastofnun hafði áður, en fékk jafnframt það verkefni að hafa yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála. Mannvirkjastofnun er umhverfis- og auðlindaráðherra til aðstoðar hvað varðar brunamál, rafmagnsöryggismál og byggingarmál. Stofnunin er stjórnsýslustofnun sem stuðlar að samræmdu byggingareftirliti um allt land, meðal annars með gerð leiðbeininga, skoðunarhandbóka og með beinum íhlutunarrétti ef byggingareftirlit sveitarfélaganna er ekki í samræmi við ákvæði laganna. 

Matis logo copy

Hlutafélagið Matís ohf. tók til starfa 1. janúar 2007 á grundvelli laga nr. 68/2006 og heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Í hlutafélaginu sameinuðust þrjár ríkisstofnanir sem unnið höfðu að matvælarannsóknum og þróun í matvælaiðnaði. Þetta voru Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og Rannsóknastofa Umhverfisstofnunar.

Hönnun, Forritun & Hýsing Arctic Portal