Westfjords university logo

Háskólasetur Vestfjarða er stofnun á háskólastigi. Það var stofnað árið 2005 og tók til starfa í janúar 2006. Við Háskólasetrið sjálft starfa um 10 manns auk lausráðinna kennara. Í húsnæði Háskólaseturs starfa í heild yfir 50 manns við rannsóknir, kennslu og þjónustu hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum.

Háskólasetrið er fjarnámssetur sem þjónustar 100 fjarnema, það starfrækir meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og meistaranám í sjávartengdri nýsköpun fyrir samtals um 40 meistaranema auk þess að bjóða upp á margs konar sumarnámskeið.

Meistaranámið í haf- og strandsvæðastjórnun var sett í september 2008 af þáverandi menntamálaráðherra. Námsmenn útskrifast frá Háskólanum á Akureyri með Master of Resource Management (MRM) gráðu. Námið er alþjóðlegt, þverfaglegt og kennt í lotum. Allar loturnar eru opnar þátttakendum frá íslenskum og erlendum háskólum og úr atvinnulífinu.

Háskólasetur Vestfjarða er stærsta stofnunin í Vestra-húsinu á Ísafirði og leiðandi í samstarfi stofnana í rannsóknaklasa Vestfjarða. Alla jafna sinnir Háskólasetrið þó ekki rannsóknum nema í samstarfi við rannsóknarstofnanir innan og utan Vestfjarða.

Háskólasetur Vestfjarða er aðili að alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á vegum Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic) og hefur tekið þátt í verkefnum Norðurlandaráðs og Evrópusambands.

Háskólasetur Vestfjarða leggur áherslu á gæðastarf og fylgir Bologna-kröfum evrópskra háskóla í samvinnu við innlenda og erlenda samstarfsháskóla sína. Jafnframt er Háskólasetrið ung og sveigjanleg stofnun. Starfsmenn leggja sig fram við að þjónusta náms- og rannsóknarmenn á Vestfjörðum sem allra best og veita þeim náms- og rannsóknarmönnum utan Vestfjarða, sem vilja tengjast litlu en heillandi rannsóknarumhverfi á Vestfjörðum, fyrirtaks þjónustu.

Rannsóknir og samstarf

Háskólasetur Vestfjarða vinnur náið með rannsóknarstofnunum á Vestfjörðum sem og utan þeirra. Við Háskólasetrið sjálft eru ekki ráðnir rannsóknarmenn, en meistaranemar við Háskólasetrið bæta árlega við þekkingu á sviði haf- og strandsvæðastjórnunar með lokaritgerðum sínum. Í meistaranáminu kenna virtir háskóla-kennarar sem koma víða að og skapa tengsl á milli Háskólasetursins og eigin rannsóknarumhverfis.

Útibú Hafrannsóknarstofnunnar og Matís, Rannsóknarsetur Háskóla Íslands, Náttúrustofa Vestfjarða sem og ýmis fyrirtæki á Vestfjörðum fást við margvíslegar rannsóknir, svo sem á sjávarútvegi og afurðum hans. Þar á meðal má nefna rannsóknir á veiðafæratækni, fiskeldi, burðarþoli vistkerfa og umhverfis- og fjarðarannsóknir. Þessar rannsóknir hafa allar snertifleti við helstu umfjöllunarefni meistaranáms Háskólasetursins í haf- og strandsvæða-stjórnun. Háskólasetur Vestfjarða, Fjórðungssamband Vestfirðinga, fyrir hönd sveitarfélaga á Vestfjörðum, og Teiknistofan Eik hafa hrint af stað stóru rannsóknarverkefni um nýtingaráætlun strandsvæða (marine spatial planning). Snjóflóðasetur Veðurstofu Íslands sinnir rannsóknum á ofanflóðum og er staðsett í sama húsnæði og Háskólasetur, líkt og flestar stofnanirnar sem hér eru nefndar. Þar af leiðandi er til staðar, í Háskólasetrinu, umhverfi þar sem rannsóknarmenn, gestakennarar og nemendur geta auðveldlega hist.

Verkefni á norðurslóðum

Háskólasetrið tengist líka alþjóðlegum samstarfsverkefnum, svo sem aquaTNet um kennslu á sviði fiskeldis og UArctic Thematic Network on Coastal and marine issues sem og TN on Local Governance á vegum Norðurslóðaháskólans (University of the Arctic).

Vefsíða

Nánari upplýsingar er að finna á vef Háskólaseturs Vestfjarða.

Tengiliður

Peter Weiss

Nafn: Peter Weiss
Starfsheiti: Forstöðumaður
Netfang: weiss[@]uw.is
Sími: 450 3045 / 869 3045

Hönnun, Forritun & Hýsing Arctic Portal